Fótbolti

Patrick Vieira á leiðinni í franska boltann?

Ómar Þorgeirsson skrifar
Patrick Vieira.
Patrick Vieira. Nordic photos/AFP

Framtíð Patrick Vieira virðist ekki vera á San Siro en miðjumaðurinn gamalreyndi náði ekki að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður hjá Inter undir stjórn José Mourinho.

Vieira viðurkennir að hann hafi jafnvel hug á því að reyna fyrir sér í frönsku úrvalsdeildinni.

„Ég á enn eitt ár eftir af samningi mínum og ég gæti klárað hann en ef knattspyrnustjórinn getur ekki notað mig þá fer ég bara einhvert annað. Paris St. Germain og Lyon gætu bæði verið áhugaverð félög til að spila fyrir. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að vera í liði þar sem ég fæ að spila reglulega vegna þess að það styttist í lokakeppni HM," segir Vieira.

Forseti Lyon hefur þegar staðfest að félagið hafi áhuga á að fá miðjumanninn í síðar raðir en félagið varð að sjá á eftir meistaratitlinum í hendur Bordeaux eftir að hafa unnið hann í sjö ár í röð þar á undan.

„Patrick er mjög sjarmerandi leikmaður og mikill leiðtogi á velli og hann myndi nýtast Lyon vel," segir Jean-Michel Aulas forseti Lyon í samtali við dagblaðið Le Progres.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×