Körfubolti

Það yrði plús að ná strax í titil

Hildur Sigurðardóttir, leikmaður KR.
Hildur Sigurðardóttir, leikmaður KR.
"Andinn í liðinu er frábær og æfingar hafa gengið vel, svo við mætum alveg tilbúnar í þennan úrslitaleik," sagði Hildur Sigurðardóttir fyrirliði kvennaliðs KR þegar Vísir náði tali af henni.

KR og Keflavík mætast í úrslitaleik Subwaybikarkeppni kvenna í Laugardalshöllinni klukkan 14.00 í dag.

Við spurðum Hildi hvort KR-stúlkur væru smeykar við reynslumikið Keflavíkurliðið í svona stórum úrslitaleik. "Nei, nei. Það skiptir kannski einhverju máli, en ég verð ekkert að hugsa um það þegar í leikinn er komið. Við vorum tilbúnar í síðasta leik á móti þeim og þá unnum við þær og ættum því að geta það aftur," sagði Hildur.

Hún segir varnarleik KR-liðsins algjöran lykil að sigri í úrslitaleiknum. "Það er númer eitt, tvö og þrjú að keyra sig út í vörninni og passa að þær fái ekki góð skot. Þær eru með góðar skotmenn en ef við höldum í vörninni, tel ég að við séum líklegar. Þá fáum við hraðaupphlaupin og þau hafa skilað okkur vel hingað til," sagði Hildur. Hún bendir á að hlutirnir hafi þróast hratt hjá kvennaliði KR síðustu misserin.

"Það er auðvitað langt síðan þetta lið hefur unnið titil og það eru ekki nema tvö ár síðan að var ekkert lið hérna í KR, svo þetta er bara uppbyggingarstarf sem er að skila sér. Það yrði mikill plús fyrir félagið að ná í titil strax," sagði Hildur.

En er samkeppni á milli karla- og kvennaliðsins? "Nei, ekkert svoleiðis, en það væri rosalega gaman ef báðum liðum tækist að koma titli í hús," sagði Hildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×