Íslenski boltinn

Landsliðsþjálfarinn fórnarlamb vinnustaðahrekks

Ómar Þorgeirsson skrifar
Svona var aðkoman á skrifstofu Sigurðar Ragnars þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði.
Svona var aðkoman á skrifstofu Sigurðar Ragnars þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði. Mynd/Vilhelm

Það tók heldur óvenjuleg sjón við Landsliðsþjálfaranum Sigurði Ragnari Eyjólfssyni þegar hann steig inn á skrifstofu sína á leikdag í gær fyrir leik Íslands og Eistlands í undankeppni HM 2011.

Skrifstofan var þakin um 500 hundruð pappaglösum sem öll voru full af vatni. Sigurður Ragnar dvaldi í Keflavík ásamt stelpunum í landsliðinu daginn fyrir leik og þá sáu nokkrir óprúttnir vinnufélagar Sigurðar Ragnars hjá KSÍ sér leik á borði.

„Þeir tóku sig til vinnufélagarnir og þetta sýnir kannski best hvað það er lítið að gera hjá okkur. Nei, þeir voru nú reyndar að hefna sín. Þannig er mál með vexti að þegar Dagur [Sveinn Dagbjartsson] sem er að vinna með mér í fræðslumálunum fór í frí um daginn þá tókum við okkur til og plöstuðum allt inni á skrifstofunni hans, stólinn hans, skrifborðið, tölvuna, músina og músamottuna og öll blöðin og allan pakkann bara.

Þetta er bara jákvæður og skemmtilegur vinnuandi á vinnustaðnum og það er bara gaman að því. Það vill reyndar svo skemmtilega til að Dagur er einmitt að fara á ráðstefnu í Grikklandi fljótlega og við skulum sjá til hvað gerist þá," segir Sigurður Ragnar og hlær við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×