Íslenski boltinn

Landsbankadeildin liðin undir lok

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FH varð Íslandsmeistari í sumar.
FH varð Íslandsmeistari í sumar. Mynd/Vilhelm

Landsbankinn (NBI hf.) hefur afsalað sér markaðsrétti á efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu og munu því deildarinar ekki bera nafn bankans eins og undanfarin ár.

Stjórn bankans ákvað þetta í vikunni en fram kemur í tilkynningu að hún telji ekki rétt að verja háaum upphæðum í kaup á markaðsrétti að deildunum með tilheyrandi markaðsherferð.

Bankinn mun þó halda áfram að styðja íslenskt íþróttalíf, eins og það er orðað, og hefur endurnýjað samninga sína við flest þau íþróttafélög þar sem bankinn hefur verið bakhjarl undanfarin ár.

Tilkynningin í heild sinni:

„Landsbankinn afsalar sér markaðsrétti á Landsbankadeildinni

- Bankinn heldur áfram stuðningi við íþróttafélög um land allt -

Landsbankinn (NBI hf.) verður ekki bakhjarl efstu deilda karla og kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu sumarið 2009 og hefur afsalað sér markaðs- og nafnarétti á Landsbankadeildinni. Bankastjórn Landsbankans telur ekki rétt að verja háum upphæðum í kaup á markaðsrétti að deildunum með tilheyrandi markaðsherferð. Landsbankinn mun eftir sem áður styðja íslenskt íþróttalíf með því að endurnýja samstarfssamninga við fjölmörg íþróttafélög um land allt.

KSÍ hefur undanfarin ár framselt útsendingar- og markaðsrétt vegna íslenskrar knattspyrnu til þýska fyrirtækisins Sportfive. Þýska fyrirtækið hefur síðan endurselt bankanum markaðsrétt á efstu deildum karla og kvenna.

Landsbankinn mun kappkosta að styðja íslenskt íþróttalíf og við núverandi aðstæður verður það best gert í gegnum útibúin með beinum samstarfssamningum við íþróttafélög hringinn í kringum landið.

Bankinn hefur undanfarið endurnýjað samninga við flest þau íþróttafélög þar sem bankinn hefur verið leiðandi bakhjarl á síðustu árum. Í slíku samstarfi leggur bankinn mikla áherslu á að styðja barna- og unglingastarf. Samningarnir taka mið af breyttum aðstæðum. Undantekningalítið nýtast styrkirnir til að standa straum af þjálfun iðkenda á öllum aldri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×