Íslenski boltinn

Þorvaldur: Það mátti ekki miklu muna í þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram. Mynd/Pjetur

„Þetta var góður sigur hjá okkur og við erum mjög sáttir," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram eftir að liðið sló bikarmeistara KR út úr undanúrslitum VISA-bikarsins með 1-0 sigri á Laugardalsvellinum í dag.

„Við ætluðum okkur að vera þolinmóðir. Við höfum átt í vandræðum með það að verða óþolinmóðir þegar hlutirnir eru ekki alveg að virka og líka þegar þeir eru að virka. Það mátti ekki miklu muna í þessum leik og þetta hefði getað dottið báðum megin eins og ég bjóst við fyrir leikinn," sagði Þorvaldur.

„Við byrjuðum ekki nógu vel og það var aðallega út af því að sendingarnar okkar voru ekki að rata rétta leið. Við vorum að koma okkur sjálfir í vandræði með lélegum sendingum en síðan náðum við að stilla strengina og róa okkur aðeins. Þá fórum við kannski að hitta bláar skyrtur og um leið fór þetta að ganga betur," sagði Þorvaldur.

Jón Guðni Fjóluson hefur komið að mörgum mikilvægum mörkum hjá Fram í sumar og hann lagði upp sigurmarkið á frábæran hátt.

„Jón Guðni gerði þetta vel þegar hann lagði upp markið en ef hann hefði spilað fyrri hálfleikinn jafnvel og þann seinni þá hefði stressið kannski ekki verið svona mikið," sagði Þorvaldur í léttum tón.

Varamaðurinn Joe Tillen var hetja Framara og skoraði dæmigert mark fyrir þennan skeinuhætta vængmann. „Joe Tillen á þessi hlaup til og það var ánægjulegt að sjá hann sleppa þarna í gegn. Hann kláraði síðan færið alveg frábærlega," sagði Þorvaldur sem hafði sett Joe inn á sextán mínútum fyrr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×