Íslenski boltinn

Logi Ólafsson: Þeirra plan gekk upp í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Ólafsson, þjálfari KR.
Logi Ólafsson, þjálfari KR. Mynd/Pjetur

„Það eru alltaf vonbrigði að tapa leikjum og sérstaklega þegar þeir eru svona þýðingarmiklir eins og þessi," sagði Logi Ólafsson, þjálfari KR eftir 0-1 tap á móti Fram í undanúrslitaleik VISA-bikars karla í dag.

„Við vorum ekki nógu vandvirkir í sóknarleiknum og sköpuðum okkur nógu mikið af færum og því fór sem fór. Við gerðumst síðan of ákafir fram á við í aðdraganda marks þeirra þar sem við missum boltann illa," sagði Logi.

„Það voru kannski mistök af okkar hálfu að vera allir inn á síðasta þriðjungi vallarins hjá þeim og ná ekki að skapa nein marktækifæri. Það hefði kannski verið heillavænlegra að vera þolinmóðir, bíða, halda boltanum og reyna að lokka þá framar á völlinn. Það gerðum við ekki og það var okkar klaufaskapur," sagði Logi.

„Þetta handrit hefur verið skrifað áður að knattspyrnuleik og við höfum margoft séð þetta að lið liggi í vörn og freisti þess að fá skyndisóknir. Það gerðu þeir í dag, það var þeirra upplegg og það skóp sigurinn hjá þeim," sagði Logi.

„Við erum ekki ánægðir með að hafa ekki búið til fleiri færi og unnið leikinn. Framarar börðust fyrir sínu og þeirra plan gekk upp í dag," sagði Logi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×