Körfubolti

Skemmtilegur leikur á Sunnubrautinni á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingurinn Jón Norðdal Hafsteinsson.
Keflvíkingurinn Jón Norðdal Hafsteinsson. Mynd/Anton

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur heldur lokahóf sitt í KK-salnum á morgun og eru fyrrum formenn, Íslandsmeistarar kvenna 1988 og Íslandsmeistarar karla frá 1989 sérstakir heiðursgestir á hófinu.

Hátíðin hefst fyrr um daginn þegar Keflvíkingar hittast á Sunnubrautinni þar sem fram fer skemmtilegur leikur á milli meistaraliðs Keflavíkur frá 1989 og núverandi leikmanna Keflavíkurliðsins. Leikurinn hefst klukkan 17.30 og heimasíða Keflavíkur lofar því að allar stórstjörnur liðanna muni mæta til leiks.

Á heimasíðu Keflavíkur kemur fram að stuðningsmönnum félagsins gefist nú einstakt tækifæri á að kaupa þjálfarastarf liðanna og stýra liðinum í þessum stórleik. Núverandi þjálfari Keflavíkur, Sigurður Ingimundarson, mun ekki stjórna sínu liði í leiknum, þar sem hann verður upptekinn við það að spila með 1989-liðinu.

Keflavík varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1989 og í liðinu voru Albert Óskarsson, Axel Nikulásson, Egill Viðarsson, Einar Einarsson, Falur Harðarsson, Guðjón Skúlasson, Jón Kr. Gíslasson, Magnús Guðfinnsson, Nökkvi Már Jónsson og Sigurður Ingimundarsson.

Það má finna frekari upplýsingar um lokahófið og leikinn á heimasíðu Keflavíkur en fréttina þar má nálgast hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×