Fótbolti

Björgólfur fimmti leikmaðurinn sem kemur inn í hópinn fyrir Georgíuleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgólfur Takefusa lék sinn eina landsleik árið 2003.
Björgólfur Takefusa lék sinn eina landsleik árið 2003. Mynd/Daníel

Ísland mætir Georgíu í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum klukkan 19.30 í kvöld en hópurinn er nokkuð breyttur frá því á laugardaginn þegar liðið var óheppið að vinna ekki Norðmenn í undankeppni HM 2010. Þrír af fjórum fremstu mönnum liðsins hafa forfallast sem og fyrirliðinn, öll miðjan, annar miðvörðurinn og varamarkvörðurinn.

KR-ingurinn Björgólfur Takefusa var síðastur til að koma inn í hópinn en hann kemur í stað Heiðars Helgusonar sem er meiddur. Áður höfðu Eiður Smári Guðjohnsen, Árni Gautur Arason, Brynjar Björn Gunnarsson, Ragnar Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen forfallast auk þess að Rúrik Gíslason og Aron Einar Gunnarsson voru með 21 árs liðinu í frábærum sigri á Norður-Írum í gær.

Hinir fjórir sem voru komnir inn í hópinn auk Björgólfs voru Hannes Þór Halldórsson úr Fram, Baldur Sigurðsson úr KR, Bjarni Ólafur Eiríksson úr Val og Davíð Þór Viðarsson úr FH.

Það eru að verða sex ár síðan að Björgólfur lék sinn fyrsta og eina landsleik en það var í markalausu jafntefli á móti Mexíkó í San Fransisco í Bandaríkjunum 20.nóvember 2003.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×