Fótbolti

Nedved ekki á leið til Inter - Fer hugsanlega í MLS-deildina

Ómar Þorgeirsson skrifar
Pavel Nedved.
Pavel Nedved. Nordic photos/AFP

Miðjumaðurinn tékkneski Pavel Nedved, sem lagði skóna á hilluna frægu í lok síðustu leiktíðar með Juventus, var nýlega í ítölskum fjölmiðlum orðaður við óvænta endurkomu í ítalska boltann, með Inter.

Nedved hefur nú tekið fyrir þessar sögusagnir er útilokar ekki að dusta rykið af fótboltaskónum í Bandaríkjunum.

„Ég er búinn að ákveða að hætta, alla vega á Ítalíu. Ég mun því ekki spila með Inter og ekki heldur með Juventus en ég er þakklátur þeim sem hafa leitað til mín og hafa trú á mér. Ég sé reyndar ekki fyrir mér að ég gæti klæðst annarri treyju en þeirri hvítu og svörtu á Ítalíu eftir góð ár hjá félaginu.

Ég hef þó ekki áhuga á að þjálfa þennan leikmannahóp hjá Juventus eins og talað var um einhvers staðar. Það yrði of skrýtið. En ef það kæmi hins vegar samningsboð frá Bandaríkjunum um að spila í MLS-deildinni þá myndi ég örugglega skoða það vel og vandlega," segir Nedved í samtali við Gazzetta dello Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×