Handbolti

Sverre á leiðinni til Grosswallstadt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sverre fer aftur í atvinnumennsku.
Sverre fer aftur í atvinnumennsku.

Landsliðsmaðurinn Sverre Andreas Jakobsson staðfesti við Vísi eftir landsleikinn í dag að hann væri kominn með annan fótinn til Þýskalands en fátt virðist geta komið í veg fyrir að hann geri tveggja ára samning við þýska úrvalsdeildarfélagið Grosswallstadt.

„Það eru allar líkur á að ég semji við félagið. Það á eftir að ganga frá lausum endum en það má segja að ég sé kominn með annan fótinn til Þýskalands," sagði Sverre.

Grosswallstadt vildi í upphafi semja við Sverre frá og með árinu 2010 en á dögunum skiptu þeir um skoðun og vildu fá Sverre strax til félagsins.

„Ég hef rætt við mína vinnuveitendur og fæ ótrúlegan skilning þar eins og venjulega," sagði Sverre en fjölskylda hans er einnig tilbúinn að leggjast aftur í víking - aðeins ári eftir að hún kom heim frá Þýskalandi þar sem Sverre lék síðast með Gummersbach.

„Staðan er öðruvísi í dag en þegar við komum heim. Svo er þetta gaman og forréttindi að fá að spila í bestu deild í heimi. Miðað við allt og allt fannst okkur plúsarnir vera fleiri við að fara aftur út."

Hjá Grosswallstadt hittir Sverre fyrir annan landsliðsmann, Einar Hólmgeirsson.

„Hann var til í að borga mér tíund af laununum sínum fyrir að koma," sagði Sverre léttur. „Það er alltaf gaman að hafa Íslendinga í kringum sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×