Fótbolti

Ítalía: Þrjú rauð spjöld í Rómareinvíginu

Mauro Zarate fagnar marki sínu gegn Roma í dag
Mauro Zarate fagnar marki sínu gegn Roma í dag AFP

Það er jafnan hiti í kolunum þegar grannliðin Lazio og Roma eigast við í ítalska boltanum. Einvígi liðanna í dag var engin undantekning og lauk leiknum með 4-2 sigri Lazio þar sem þrír leikmenn fengu að líta rauða spjaldið.

Þetta var 132. grannaslagur liðanna á Ólympíuleikvangnum í Róm og þurftu bæði lið nauðsynlega á sigri að halda. Goran Pandev og Mauro Zarate tryggðu Lazio óskabyrjun í leiknum með tveimur mörkum á fyrstu fjórum mínútum leiksins, en Philippe Mexes minnkaði muninn fyrir Roma á 10. mínútu.

Stepan Lichtsteiner kom Lazio í 3-1 á 58. mínútu en eftir það fór að hitna í kolunum. Þeir Christian Panucci og Philippe Mexes hjá Roma og Francesco Matuzalem hjá Lazio fengu allir að líta rauða spjaldið rúmlega 20 mínútna kafla í síðari hálfleik. Þegar 10 mínútur lifðu leiks minnkaði Daniele De Rossi muninn fyrir Roma en það var svo Aleksandar Kolarov sem innsiglaði sigur Lazio þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Meistaraefnin í Inter urðu að sætta sig við 2-2 jafntefli heima gegn Sikileyingunum í Palermo. Mario Balotelli og Zlatan Ibrahimovic komu Inter í 2-0 í fyrri hálfleik, en tvö mörk með þriggja mínútna millibili undir lokin tryggðu Palermo jafntefli.

Tveir leikmenn fengu að líta rauða spjaldið í 2-1 sigri Fiorentina á Cagliari.

Í kvöld mætast Genoa og Juventus.

Inter hefur hlotið 73 stig og situr í toppsæti deildarinnar. Juventus er tíu stigum á eftir í öðru sætinu og Milan hefur 61 stig í þriðja sætinu. Fiorentina er í fjórða sætinu með 55 stig og Genoa í fimmta með 54 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×