Körfubolti

Þjálfaramet í hættu í úrslitaleikjum Powerade-bikarsins í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson getur í dag orðið fyrsti þjálfarinn til að gera karla- og kvennalið að fyrirtækjameisturum.
Benedikt Guðmundsson getur í dag orðið fyrsti þjálfarinn til að gera karla- og kvennalið að fyrirtækjameisturum. Mynd/Vilhelm

Úrslitaleikir Powerade-bikars karla og kvenna fara fram í Laugardalshöllinni í dag. Kvennalið KR og Hamars mætast klukkan 13.00 og klukkan 15.30 hefst leikur karlaliða Njarðvíkur og Grindavíkur. Kvennalið KR og karlalið Grindavíkur töpuðu úrslitaleikjunum keppninnar í fyrra og eru bæði sigurstranglegri í leikjum dagsins.

Þetta verður fyrsti úrslitaleikur kvennaliðs Hamars frá upphafi en liðið komst í úrslitaleikinn með því að vinna Íslandsmeistara Hauka á þeirra eigin heimavelli. KR-konur eru hinsvegar að spila sinn fimmta úrslitaleik í þessari keppni en þær hafa þó ekki unnið fyrirtækjabikarinn í níu ár.

Þjálfari Hamars er Ágúst Björgvinsson sem gerði Hauka tvisvar sinnum að fyrirtækjabikarmeisturum á sínum tíma. Hann getur orðið fyrsti kvennaþjálfarinn til þess að vinna þessa keppni með tveimur félögum.

Benedikt Guðmundsson, gerði karlalið KR að Powerade-meisturum í fyrra og getur nú endurtekið leikinn með kvennalið KR. Hann yrði þá fyrsti þjálfarinn til að vinna þessa keppni með bæði karla- og kvennalið.

Það er ljóst að saga keppninnar verður endurskrifuð í karlaflokki því Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur og Valur Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkur, geta báðir orðið fyrstu þjálfararnir til þess að vinna þessa keppni með tveimur liðum.

Njarðvík vann undir stjórn Friðriks árið 2001 og 2003 og Valur gerði Tindastól að fyrirtækjabikarmeisturum árið 1999.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×