Körfubolti

Grindvíkingar geta komist á toppinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Páll Axel Vilbergsson á ferðinni í fyrri leik Grindavíkur og Breiðabliks í Smáranum.
Páll Axel Vilbergsson á ferðinni í fyrri leik Grindavíkur og Breiðabliks í Smáranum. Mynd/Anton

Grindvíkingar geta komist á topp Iceland Express deildar karla í körfubolta í kvöld vinni þeir Breiðablik á heimavelli sínum. Grindavík myndi þá ná KR að stigum en væri ofar þar sem liðið er með betri árangur en KR í innbyrðisviðureignum liðanna. KR-ingar spila síðan ekki sinn leik í umferðinni fyrr en á morgun þegar þeir heimsækja Njarðvík í Ljónagryfjuna.

Grindavík er búið að vinna alla níu heimaleiki sína í vetur þar af fimm þá síðustu með meira en tíu stiga mun. Grindavík er einnig búið að vinna alla sex deildarleiki sína síðan að Nick Bradford kom til liðsins í janúar.

Grindavíkurliðið gat talist heppið að sleppa með sigur frá Keflavík í síðasta leik þar sem Nick Bradford átti slakan dag og tapaði meðal annars tólf boltum. Hann mun væntanlega ætla að bæta fyrir þann leik strax í kvöld.

Breiðablik hefur aldrei unnið úrvalsdeildarleik í Grindavík en Blikar heimsækja Röstina í áttunda sinn í kvöld. Blikar léku þar síðast 4. mars 2004 og töpuðu þá með 23 stiga mun. Blikarnir eru í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina en þeir eru í áttunda sætinu eins og er þrátt fyrir að hafa aðeins náð að vinna einn af síðustu fimm leikjum sínum.

Aðrir leikir kvöldsins eru á milli FSu og Snæfells í Iðu á Selfossi annarsvegar og hinsvegar á milli Skallagríms og ÍR í Borgarnesinu. Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×