Íslenski boltinn

Eigum að vinna þennan leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Landsliðsþjálfarinn vill fá sigur í dag.
Landsliðsþjálfarinn vill fá sigur í dag. Mynd/Stefán

Ísland og Færeyjar mætast í vináttulandsleik í Kórnum klukkan 14.00 í dag. Um er að ræða hálfgerðan B-liðs landsleik enda vantar ansi marga sterka leikmenn í bæði lið.

„Þessi leikur leggst ágætlega í mig. Mannskapurinn í fínu standi og lítur vel út," sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari en hann náði tveimur æfingum með strákunum í gær.

„Erlendu leikmennirnir eru eðlilega í betri leikæfingu en þeir íslensku sem eru samt í eins fínu standi og þeir geta verið á þessum tíma," sagði Ólafur sem sættir sig við ekkert annað en sigur í dag.

„Við eigum að vinna þennan leik. Þó svo þeir eigi fínan leik þá eigum við að vinna ef við spilum vel. Ég ætlast til þess að menn gefi allt sem þeir eiga í leikinn. Þetta er tækifæri fyrir þá og ég trúi ekki öðru en að menn hafi metnað til þess að reyna að nýta það tækifæri vel," sagði Ólafur sem velur landsliðshópinn fyrir Skotaleikinn á morgun.

„Þessir strákar eiga alveg möguleika að komast í þann hóp. Þessi leikur er gluggi fyrir þá. Þeir fá einnig að kynnast því hvernig það er að vera í landsliðinu."

Leiknum verður lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Hægt er að fylgjast með á Miðstöð Boltavaktarinnar, visir.is/boltavakt, þar sem hægt er að smella á sjálfan leikinn. Þar munu birtast upplýsingar um byrjunarlið og annað slíkt þegar þær liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×