Íslenski boltinn

Hólmfríður: Veit ekkert um þetta lið, veit bara að við ætlum að vinna

Ómar Þorgeirsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Mynd/Stefán

„Það er alltaf gaman að hitta stelpurnar í landsliðinu því við erum svo góðar vinkonur allar saman og það er alltaf góð stemning í hópnum. Það er svo auðvitað sértaklega skemmtilegt að spila á heimavelli," segir landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir fyrir landsleikinn gegn Eistlandi í undankeppni HM 2011 á Laugardalsvelli í kvöld en leikurinn hefst kl. 20.

Hólmfríður kveðst ekki þekkja mikið til mótherja Íslands í kvöld en segir það vera aukaatriði þar sem markmið íslenska liðsins í undankeppninni séu skýr.

„Ég veit ekkert um Þetta lið. Ég veit bara að við ætlum að vinna leikinn. Þátttaka okkar í lokakeppni EM fer beint í reynslubankann hjá liðinu og á eftir að hjálpa okkur í þessarri undankeppni og við erum búnar að setja okkur markmið að komast á lokakeppni HM og til þess þurfum við góðan stuðning.

Við fengum náttúrulega frábæran stuðning á EM og það var alveg sama í hvaða stöðu við vorum í leikjunum að þau voru alltaf syngjandi og gólandi alla leikina. Það hjálpar mjög mikið og vonandi koma sem flestir á leikinn og styðja við bakið á okkur.

Fólk mætir vonandi bara í kraftgallanum með kakóið og trommurnar eins og í Íraleiknum í nóvember í fyrra. Núna er meira að segja aðeins hlýrra en þá," segir Hólmfríður vongóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×