Íslenski boltinn

Höttur sló út Selfoss í dramatískum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Víkingur frá Ólafsvík féll úr leik í bikarnum í dag.
Víkingur frá Ólafsvík féll úr leik í bikarnum í dag. Mynd/Stefán
32-liða úrslit VISA-bikarkeppni karla hófst í dag með fimm leikjum. Fjórum þeirra er nú lokið en sú fimmta er nú í gangi.

Höttur, sem er í 8. sæti 2. deildar Íslandsmótsins, gerði sér lítið fyrir og sló út Selfyssinga á útivelli í dag. Selfoss er í efsta sæti 1. deildarinnar.

Leikurinn var dramatískur. Selfoss komst yfir á 10. mínútu með marki Agnars Braga Magnússonar og Ingþór Jóhann Guðmundsson bætti við öðru á 34. mínútu.

En aðeins fjórum mínútum síðar var markverði Selfyssinga, Jóhanni Ólafi Sigurðssyni, vikið af velli með rautt spjald og Hattarmönnum dæmt víti. Stefán Þór Eyjólfsson skoraði úr vítinu.

Ákveðið var að taka reynsluboltann Sævar Þór Gíslason af velli í skiptum fyrir varamarkvörðinn.

Víglundur Páll Einarsson skoraði svo jöfnunarmark Hattar á 60. mínútu og þannig var staðan þegar venjulegum leiktíma lauk.

Anton Ástvaldsson, leikmaður Hattar, fékk svo að líta rauða spjaldið í framlengingunni en ekkert mark var skorað þá heldur.

Hattarmenn fögnuðu sigri í vítaspyrnukeppninni, 3-1, og unnu sér því sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.



Önnur úrslit dagsins:

Þór - Víkingur Ó.


1-0 Ármann Pétur Ævarsson (6.)

1-1 Fannar Hilmarsson (25.)

2-1 Sveinn Elías Jónsson (34.)

3-1 Sveinn Elías Jónsson (79.)

Haukar - Fjarðabyggð 0-1

0-1 Jóhann Ragnar Benediktsson (101.)

Reynir - KV 2-1

1-0 Tomasz Luba (76.)

1-1 Einar Óli Guðmundsson (88.)

2-1 Tomasz Luba (90.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×