Íslenski boltinn

Mótanefnd KSÍ frestar leik í 2. deildinni vegna svínaflensu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Birkir Sveinsson.
Birkir Sveinsson.

Mótastjórinn Birkir Sveinsson hjá Knattspyrnusambandi Íslands hefur staðfest að leik KS/Leifturs og Hamars í 2. deildinni, sem fara átti fram á morgun, hafi verið frestað vegna veikinda stórs hluta leikmannahóps Hamars.

Á þessu stigi hefur mótanefnd KSÍ ekki ákveðið hvenær leikurinn muni fara fram.

„Það eru einhverjir leikmenn staðfestir með svínaflensu hjá Hamri en margir veikir og ekki greining komin hjá öllum. Þetta virðist vera svipað tilfelli og hjá Grindavík," segir Birkir.

Þetta er í annað skiptið á tveimur dögum sem mótanefnd KSÍ samþykkir frestun á leik vegna veikinda leikmanna en eins og fram hefur komið á Vísi var leik Grindavíkur og ÍBV frestað eftir að leikmenn Grindavíkur veiktust.

Þar af hefur verið staðfest að tveir leikmenn liðsins hafi greinst með svínaflensuna.

Birkir segir ekki fleiri tilfelli hafa komið inn á borð til sín að svo stöddu en er við öllu búinn.

„Eins og staðan er núna hafa engar fleiri beiðnir borist okkur en þessar tvær hjá Grindavík og Hamar en við erum við öllu búnir. Mótanefndin hefur annars ákveðið hvaða forsendur þurfi að liggja að baki því að frestun leikja fáist og það er ef veruleg skörð eru höggvin í leikmannahópa liðanna vegna veikinda," segir Birkir.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×