Íslenski boltinn

Gróttumenn komnir upp í 1. deild í fyrsta sinn í sögu félagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásmundur Guðni Haraldsson hefur þjálfað Gróttuliðið undanfarin fimm sumur.
Ásmundur Guðni Haraldsson hefur þjálfað Gróttuliðið undanfarin fimm sumur. Mynd/Heimasíða Gróttu

Gróttumenn tryggðu sér í dag sæti í 1. deild karla í fótbolta í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 4-0 útisigur á Víðir í Garði. Það ræðst ekki fyrr en í hreinum úrslitaleik um næstu helgi á milli Suðurnesjaliðanna Reynis úr Sandgerði og Njarðvík hvort liðið fylgir Gróttu upp í 1. deild.

Sigurvin Ólafsson skoraði tvö mörk fyrir Gróttu í dag, Árni Ingi Pjetursson var með eitt og eitt markanna var sjálfsmark. Grótta hefur unnið 12 af 21 leikjum sínum í sumar og er eftir leikinn með fjögurra stiga forskot á Reyni sem er í 3. sætinu. Reynir er síðan einu stig á eftir Njarðvík sem er í öðru sætinu. Reynir tekur á móti Njarðvík í Sandgerði í lokaumferðinni um næstu helgi þar sem gestunum úr Njarðvík nægir jafntefli.

Grótta endaði í 7. sæti 2. deildarinnar í fyrra en liðið hafði áður náð bestum árangri sínum sumarið 1992 þegar liðið endaði í 3. sæti í C-deildinni og var hársbreidd frá því að komast upp í B-deildina. Grótta sat þá eftir á lakari markatölu en lið þróttar frá Neskaupstað.

Þjálfari Gróttu er Ásmundur Guðni Haraldsson og er hann á sínu fimmta ári með liðið. Ásmundur tók við liðinu í d-deild árið 2004, liðið komst upp í C-deild árið 2007 og svo áfram upp í 1. deildina í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×