Íslenski boltinn

Hólmfríður: Við kláruðum þennan leik með stæl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði þrennu í seinni hálfleik.
Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði þrennu í seinni hálfleik. Mynd/Vilhelm

Hólmfríður Magnúsdóttir var kát í leikslok eftir 12-0 sigur á Eistlandi í kvöld. Hólmfríður reyndi mikið í leiknum og átti alls tólf skot að marki eistneska liðsins og þar af enduðu þrjú þeirra í markinu.

„Þetta var skrítinn leikur. Þær voru ekkert að spila fótbolta þannig að þetta var sóknarleikur fyrir okkur. Ég var mjög ánægð að við náðum að halda leikinn út því það er ekki alltaf sem maður nær aðhalda einbeitingu í 90 mínútur í svona leik," sagði Hólmfríður eftir leikinn.

„Þetta stefndi vissulega í eitthvað skrautlegt frá byrjun en ég var mjög ánægð með karakterinn í liðinu og að við náðum allar að einblína á það að klára leikinn í 90 mínútur og pressa þær allan tímann. Við sköpuðum okkur mikið af færum og kláruðum þennan leik með stæl," sagði Hólmfríður.

Hólmfríður þurfti að bíða eftir fyrsta marki sínu fram á fjórðu mínútu seinni hálfleiks en þá brast stíflan og hún skoraði tvö til viðbótar í seinni hálfleik og kórónaði þrennuna sína.

„Þetta var ekki alveg að fara inn hjá mér í fyrri hálfleik en við vorum samt 7-0 yfir þannig að það var fyrir öllu. Það er náttúrulega bara bónus að fá að skora líka," sagði Hólmfríður.

„Næsti leikur er á móti Frökkum og við förum að sjálfsögðu í hann til að vinna. Við allar í toppformi og vitum að við getum unnið Frakkana. Ég hlakka bara til að fara að spila á móti þeim," sagði Hólmfríður að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×