Fótbolti

Pálmi Rafn: Þurfum að gefa þeim sjokk í byrjun leiks

Ómar Þorgeirsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason
Pálmi Rafn Pálmason Mynd/Fréttablaðið

Pálmi Rafn Pálmason er einn þeirra leikmanna íslenska landsliðsins sem leikur í Noregi og þar er tímabilið bara rétt að komast á skrið þannig að menn eru í fínni leikæfingu fyrir leikinn gegn Hollandi.

„Þetta er búið að vera þétt leikjaplan hjá okkur í Stabæk undanfarið þar sem við erum búnir að vera að spila nánast tvo leiki á viku, í deild og bikar. Ég er því í fínni leikæfingu og tilhlökkunin er mikil fyrir leiknum gegn Hollandi. Maður er náttúrulega í þessu til þess að fá tækifæri til þess að spila svona leiki. Það er því eins gott að við njótum þess og stöndum okkur," segir Pálmi.

„Við komum alveg örugglega til með að fá góð marktækifæri á morgun og verðum bara að vera einbeittir þegar það gerist og vonandi náum við að stríða þeim og fá eitthvað út úr leiknum. Það kæmi mér heldur ekki á óvart ef þeir kæmu aðeins værukærir í leikinn, þó að þeir segi annað í viðtölum. Það blundar örugglega aðeins í þeim að þeir hafi ekki áhyggjur af leiknum þar sem þeir eru þegar búnir að vinna riðilinn. Við þurfum að nýta okkur það ef þeir ætla að taka þetta eitthvað rólega. Ef við gefum þeim smá sjokk í byrjun þá er aldrei að vita hvað gerist," segir Pálmi Rafn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×