Íslenski boltinn

Gunnlaugur klárar ekki tímabilið með Selfoss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson. Mynd/Arnþór

Knattspyrnudeild Selfoss og Gunnlaugur Jónsson hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að Gunnlaugur mun ekki stýra liði Selfoss í lokaleik tímabilsins um næstu helgi.

Greint var frá því á laugardaginn að Valur hefði ráðið Gunnlaug til að taka við þjálfun síns liðs. Selfoss lék á sama tíma við Hauka í næstsíðustu umferð 1. deildar karla og komu fréttirnar leikmönnum Selfyssinga í opna skjöldu.

Gunnlaugur ætlaði að spila sinn lokaleik á ferlinum með Selfossi, gegn hans gamla félagi, ÍA, nú um helgina. Ekkert verður nú af því.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Stjórn og meistaraflokksráð Knattspyrnudeildar UMF Selfoss og Gunnlaugur Jónsson hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla frá og með deginum í dag að telja.

Mikið hefur verið fjallað um mál þetta í fjölmiðlum og harma aðilar það fjaðrafok sem orðið hefur. Ákvörðun um starfslok er tekin sameiginlega í því skyni að bæði Selfoss sem og Gunnlaugur geti einbeitt sér að næstu verkefnum sínum.

Knattspyrnudeild UMF Selfoss þakkar Gunnlaugi fyrir góð störf fyrir félagið og mun framlag hans til knattspyrnumála á Selfossi svo sannarlega skila sér til framtíðar fyrir félagið sem og samfélagið á svæðinu. Gunnlaugur þakkar leikmönnum, aðstoðarmönnum, stjórn og stuðningsmönnum fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf.

Selfossi, 14. september 2009

Stjórn Knattspyrnudeildar UMF Selfoss

Gunnlaugur Jónsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×