Handbolti

Kærastinn segir að það sé í lagi að hún elski Beckham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem, vinstri hornamaður norska landsliðsins.
Camilla Herrem, vinstri hornamaður norska landsliðsins. Mynd/AFP
Camilla Herrem, hornamaður Byåsen og norska handboltalandsliðsins hefur staðið sig vel í fyrstu leikjunum á HM en hún var með 17 mörk í 21 skoti í fyrstu þremur leikjunum. Herrem er frábær hraðaupphlaupsmanneskja og komu 13 af 17 mörkum hennar úr hraðaupphlaupum.

Norska Dagblaðið er með viðtal við Camilla Herrem í dag þar sem er farið er yfir hrifningu hennar af David Beckham sem er þó í allt annarri íþrótt og á allt öðrum enda vallarins en Camilla Herrem sem spilar í vinstra horninu.

„Ég hef alltaf líkað við Beckham og það er af því að hann er svo góður fótboltamaður. Þegar ég var sex ára þá var ég ekki að hugsa um útlitið sem sýnir að það hafi ekkert með þetta að gera," sagði Camilla Herrem við Dagbladet.

Camilla Herrem spilar alltaf í númerum tengdum Beckham, en þar sem sjöan var upptekin hjá Byåsen þá spilar hún þar númer 77. Hún er síðan númer 23 hjá norska landsliðinu en David Beckham spilaði í því númeri hjá Real Madrid og Los Angeles Galaxy.

Camilla Herrem spilaði bæði fótbolta og handbolta en valdi handboltann sextán ára gömul. Hún er með plakat af Beckham í svefnherberginu sem hún ætlar aldrei að taka niður. Það skiptir engu máli þótt að hún sé komin með kærasta.

„Steffen, kærasti minn, veit að ég elska Beckham og honum er alveg sama," segir Herrem en Steffen Stegavik er norskur handboltamaður sem á möguleika á að komast í norska landsliðið á EM í Austurríki á næsta ári.

Herrem segir það þó algjöra tilviljun að kærastinn spili númer 23 kannski er það meira til heiðurs en henni en til heiðurs Beckham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×