Körfubolti

Fjölnismenn unnu oddaleikinn á Ásvöllum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Pálsson lék vel með Fjölni í kvöld og gældi við þrennuna.
Magnús Pálsson lék vel með Fjölni í kvöld og gældi við þrennuna. Mynd/Vilhelm

Fjölnismenn tryggðu sér sæti í úrslitaeinvígi 1. deildar karla með fjögurra stiga sigri á Haukum, 71-75, í oddaleik á Ásvöllum í kvöld. Fjölnir mætir annaðhvort Val eða KFÍ í úrslitaeinvíginu en oddaleikur þeirra byrjaði 45 mínútum seinna og er enn í gangi.

Fjölnir var með frumkvæðið framan af leik en Grafarvogsliðið var 16-21 yfir eftir 1. leikhluta og tveimur stigum yfir í hálfleik, 36-38. Haukaliðið vann sig smá saman inn í leikinn og það var jafnt, 55-55, fyrir lokaleikhlutann.

Fjölnisliðið skoraði tíu fyrstu stig fjórða leikhlutans og komst í 55-65 áður en Haukar skoruðu loksins sína fyrstu körfu eftir 5 mínútna leik í leikhlutanum. Haukarnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í eitt stig en náðu aldrei að jafna leikinn.

Þetta var fjórði leikur liðanna í vetur sem vinnst með fjórum stigum eða minna en Haukar unnu báða deildarleiki liðanna með tveimur stigum.

Roy Smallwood var með 22 stig hjá Fjölni, Magnús Pálsson bætti við 12 stigum, 7 fráköstum og 7 stoðsdendingum og Sindri Már Kárason skoraði 10 stig. Ægir Þór Steinarsson var með 10 stoðsendingar auk 9 frákasta og 6 stiga.

George Byrd var með 19 stig og 12 fráköst hjá Haukum og næstur kom Sveinn Ómar Sveinsson með 18 stig og 9 fráköst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×