Íslenski boltinn

Haraldur: Ég náði að þrauka út leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haraldur Guðmundsson lék sinn fyrsta leik með Keflavík í gær.
Haraldur Guðmundsson lék sinn fyrsta leik með Keflavík í gær. Mynd/Heimasíða Keflavíkur

„Þetta getur ekki byrjað betur en þetta," sagði Haraldur Guðmundsson eftir 3-1 sigur Keflavíkur á Íslandsmeisturum FH í fyrsta leik hans með Keflavík í tæp fimm ár.

Það var mikið að gera hjá Haraldi í miðri Keflavíkurvörninni enda sóttu FH-ingar grimmt í leiknum.

„Þetta var virkilega erfiður leikur. Við skorum þrjú góð mörk en áttum samt í vök að verjast nánast allan leikinn. Ég verð að taka hattinn ofan fyrir FH því mér finnst þeir spila virkilega skemmtilegan fótbolta og þeir eru mjög gott lið," sagði Haraldur og bætti við:

„Við eigum líka hrós skilið fyrir að vera eina liðið sem hefur náð að vinna þá á þessu tímabili," segir Haraldur.

„Þeir eru með boltann nánast allan seinni hálfleik og við höldum varla boltanum. Við missum reyndar Jóa útaf með rautt spjald sem gerði þetta ennþá erfiðara. Við náðum samt að verjast vel. Þeir fengu vissulega sín færi sem hlaut að gerast þegar þeir sækja og sækja en við náðum að lifa þetta af," sagði Haraldur.

„Þeir áttu dauðafæri í stöðunni 1-0 en svo förum við í sókn og skorum 2-0. Það var gott að sjá þá 2-0 á töflunni," sagði Haraldur sem var þreyttur eftir leikinn.

„Ég get ekki sagt að ég sé í mínu besta formi. Ég hafði síðasta spilað leik 12. maí en ég náði að þrauka út leikinn," sagði Haraldur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×