Íslenski boltinn

Davíð Þór: Þetta var miklu skárra en stórslysið í fyrri leiknum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson.
Davíð Þór Viðarsson. Mynd/Daníel

Fyrirliðinn Davíð Þór Viðarsson hjá FH segir að allt annað hefði verið að sjá til Íslandsmeistaranna í seinni leik liðsins gegn Aktobe í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar þrátt fyrir 2-0 tap. FH tapaði fyrri leiknum á Kaplakrikavelli 4-0 og því samanlagt 6-0.

„Þeir skoruðu úr langskoti í fyrri hálfleik og markið þeirra í síðari hálfleik var greinilega ólöglegt vegna rangstöðu. Þeir voru vissulega meira með boltann en náðu ekki að skapa sér mikið af færum en við fengum ágætis færi til þess að skora.

Matti Guðmunds átti til dæmis skalla í slá í fyrri hálfleik en inn vildi boltinn ekki og við erum kannski svekktir með það. Þeir voru hins vegar bara sterkari aðilinn í þessum leikjum. Þetta var alla vega miklu skárra núna en stórslysið í fyrri leiknum í Krikanum," segir Davíð Þór.

Næsti leikur FH er í Pepsi-deildinni á sunnudag gegn Breiðabliki en FH-ingar eiga nú fyrir höndum sér fremur langt flug aftur til Íslands frá Kasakstan.

„Við fljúgum til Danmerkur frá Kasakstan á einhverjum sjö klukkutímum og svo er það þriggja tíma flug heim til Íslands. Þetta var annars fínt á leiðinni út og maður verður bara að reyna að sofa á leiðinni," segir Davíð Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×