Körfubolti

Helena sýndi að hún er traustsins verð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena setti niður tvö mikilvæg vítakost í lokin.
Helena setti niður tvö mikilvæg vítakost í lokin. Mynd/TCU/Keith Robinson

Helena Sverrisdóttir sýndi enn einu sinni stáltaugar sínar á vítalínunni þegar hún gulltryggði 41-38 sigur TCU á New Mexico í miklum varnarleik í bandaríska háskólaboltanum í nótt.

TCU var einu stigi yfir þegar 30 sekúndur voru eftir og Jeff Mittie, þjálfari liðsins, tók þá leikhlé. Mittie setti upp sókn þannig að spilað var upp á Helenu inn í teig og það var síðan brotið á henni 20 sekúndum fyrir leikslok. Helena setti niður bæði vítin og gestirnir í New Mexico náðu síðan ekki að skora úr lokasókn sinni.

"Helena var í vandræðum allan leikinn og það gekk lítið upp hjá henni í sókninni en ég sagði henni að við ætluðum samt ekki að hætta að leita til hennar í sókninni. Hún svaraði því vel og sýndi það síðan á vítalínunni á lokasekúndunum að hún er traustsins verð," sagði Jeff Mittie í viðtali við heimasíðu TCU eftir leikinn.

Helena var með 9 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta í leiknum en hitti aðeins úr 3 af 13 skotum sínum.

Þetta var sjötti sigurleikur TCU í röð sem er lengsta sigurganga liðsins á tímabilinu. Liðið er áfram í 2. sæti í Mountain West deildinni með 11 sigra í 14 leikjum en alls hefur liðið unnið 19 af 27 leikjum tímabilsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×