Fótbolti

Margrét Lára: Vonandi búnar að setja smá pressu á þær frönsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld.
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld. Mynd/Vilhelm

„Það er langt síðan að maður hefur spilað leik þar sem að maður hefur verið í sókn í 90 mínútur," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir eftir 12-0 sigur á Eistlandi í kvöld. Margrét Lára skoraði þrennu í fyrri hálfleik en annað mark hennar í leiknum var það fimmtugasta sem hún skorar fyrir kvennalandsliðið.

„Mér fannst við gera þetta mjög vel. Það er oft þannig þegar maður spilar á móti lakari andstæðingum, að maður dettur niður á þeirra plan, sem við gerðum svolítið í Serbíuleiknum. Í þessum leik fannst mér við halda tempóinu og spila okkar leik allar 90 mínúturnar. Við uppskárum tólf frábær mörk og getum gengið virkilega sáttar af velli," sagði Margrét Lára.

„Við vonum það að við séum búnar að setja smá pressu á þær frönsku því markatalan getur skipt máli og það höfum við alltaf bak við eyrað. Það verður samt alltaf þannig að við þurfum að fá stig út úr þessum Frakkaleikjum líka og við þurfum að einbeita okkur að því í næsta leik," sagði Margrét Lára sem hefur nú skorað 51 mark í 58 A-landsleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×