Körfubolti

Oddaleikir í báðum einvígunum í 1. deild karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Hodgson er spilandi þjálfari hjá Val.
Robert Hodgson er spilandi þjálfari hjá Val. Mynd/Arnþór

Það er mikil spenna í baráttunni um síðasta sætið sem er laust í Iceland Express deild karla í körfubolta á næsta ári. Úrslitakeppni 1. deildar karla er í fullum gangi og í kvöld verða spilaðir oddaleikir í báðum undanúrslitaeinvígunum.

KFÍ jafnaði metin á móti Valsmönnum með því að vinna nokkuð öruggan 11 stiga sigur, 70-59, fyrir vestan. Valur vann fyrri leikinn 75-69.

Daniel Kalov hefur verið að spila vel fyrir KFÍ en hann er með 16,0 stig og 14,5 fráköst að meðaltali í þessum tveimur leikjum. Hjá Val er þjálfarinn Robert Hodgson búinn að skora 19,5 stig og taka 12,5 fráköst í þessum tveimur leikjum.

Haukar þurftu að vinna á útivelli til þess að tryggja sér oddaleik á móti Fjölni og það tókst þegar liðið vann 73-70 sigur í Grafarvogi. Þetta var þriðji leikur liðanna í vetur sem vinnst á 3 stigum eða minna og það stefnir því í svakalega spennu í oddaleiknum á eftir.

Kristinn Jónasson var neð 16 stig og 12 fráköst hjá Haukum í sigrinum en Fjölnismaðurinn Ægir Þór Steinarsson hefur leikið vel í fyrstu tveimur leikjunum þar sem hann er með 18,5 stig, 9,5 fráköst og 7,0 stoðsendingar að meðaltali í þessum tveimur leikjum.

Hamar vann deildarkeppnina og er því komið upp í úrvalsdeild en eins og kunnugt er þá féllu lið Skallagríms og Þórs frá Akureyri úr Iceland Express deildinni á dögunum. Það lið sem vinnur fyrr tvo leiki í lokaúrslitunum fylgir Hamar upp.

Oddaleikirnir fara fram í kvöld, Haukar taka á móti Fjölnismönnum á Ásvöllum klukkan 19.15 og klukkan 20.00 hefst leikur Vals og KFÍ í Vodafone-höllinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×