Íslenski boltinn

Símun: Þegar allir eru heilir þá er mjög erfitt að vinna okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Símun Samuelsen átti frábæran leik í kvöld.
Símun Samuelsen átti frábæran leik í kvöld. Mynd/Anton

Símun Samuelsen átti frábæran leik þegar Keflavík sló Íslandsmeistara FH út úr bikarnum með 3-1 sigri á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í kvöld. Símun skoraði tvö mörk, lagði upp það þriðja og stríddi FH-vörninni allan leikinn.

„Þeir vildu meina að þeir höfðu tapað hér í deildinni af því að þeir spiluðu 70 mínútur manni færri en við sýndum að það er bara bull. Við vorum miklu betri en þeir í kvöld og erum búnir að vera betri í innbyrðisleikjunum á móti þeim í sumar," sagði Símun.

„Við erum með marga fljóta menn og getum sótt hratt á þá og þeir ráða ekkert við það. Við lögðum upp með það að finna fljótu mennina okkar," sagði Símun en hann viðurkennir að síðasti hálftíminn hafi verið erfiður þegar Keflavíkurliðið missti mann útaf.

„Þeir eru geysilega góðir þegar þeir fá pláss til að spila. Þegar við misstum mann útaf þá gátu þeir haldið boltanum en við reyndum bara að halda þessu og það gekk," sagði Símun.

„Við sönnuðum að við erum með betri liðum í deildinni en vonbrigðin hafa verið öll þessi jafntefli. Mótið er heldur ekki búið að við ætlum að halda áfram þar. Við vorum óheppnir að missa marga í byrjun móts og vorum ekki með breiðan hóp. Þegar allir eru heilir eins og núna þá er mjög erfitt að vinna okkur," sagði Símun að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×