Fótbolti

Marksæknasti leikmaður sænsku deildarinnar í hollenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manon Melis, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Ldb Malmö.
Manon Melis, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Ldb Malmö. Mynd/Heimasíða Ldb Malmö

Manon Melis, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Ldb Malmö, verður í eldlínunni með hollenska landsliðinu í Kórnum á laugardaginn.

Melis er ein tveggja leikmanna liðsins sem spilar utan Hollands en hin er Annemieke Kiesel-Griffioen sem leikur með Duisburg í Þýskalandi.

Landsliðsþjálfari Hollands, Vera Pauw, hefur valið 20 leikmenn sem munu mæta Íslendingum í vináttulandsleik í Kórnum næstkomandi laugardag kl. 16:00 og koma flestir leikmenn frá Hollandsmeisturum AZ.

Manon Melis hefur komið að flestum mörkum í sænsku úrvalsdeildinni það sem af er en hún hefur skorað 3 mörk og lagt upp önnur fjögur í fyrstu fjórum umferðunum.

Melis varð annar markahæsti leikmaður deildarinnar í Svíþjóð á síðasta ári með 22 mörk og skoraði þá aðeins einu marki minna en hin brasilíska Marta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×