Íslenski boltinn

Brynjar Gauti: Þurfum ekki að skammast okkar fyrir þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Brynjar Gauti Guðjónsson er einn af ungu strákunum úr Víkingi sem hafa slegið gegn í bikarnum í sumar. Brynjar var ánægður með sitt lið í leikslok þrátt fyrir 3-1 tap á móti FH í undanúrslitum VISA-bikarsins.

„Þeir náðu okkur kannski á tempóinu í seinni hálfleik en við getum verið ánægðir með frammistöðuna í þessum leik. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir þennan leik," sagði Brynjar Gauti Guðjónsson, fyrirliði Víkinga úr Ólafsvíkinni.

„Þetta er liðið sem er búið að vera fimm sinnum Íslandsmeistari á síðustu sex árum og þeir eru með virkilega gott lið. Við erum búnir að sýna það í sumar að við erum líka með virkilega gott lið," sagði Brynjar.

„Við getum spilað fótbolta og við ætluðum ekkert að fara gera neitt annað í kvöld en við erum vanir að gera. Mér fannst við gera það," sagði Brynjar.

„Við verðum að byggja ofan á þessum góða árangri en síðan verðum við bara að sjá til hvert það kemur okkur," sagði Brynjar sem gæti samt verið á förum enda hafa örugglega mörg lið áhuga áþessum sterka miðverði.

„Þegar vel gengur þá er áhugi en við klárum þetta tímabil og sjáum svo til," sagði Brynjar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×