Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Nokkuð ánægður

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
„Ég er nokkuð ánægður með leikinn," sagði landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson um tap Íslands gegn Frökkum á laugardaginn.

„Við höfum oft spilað við Frakka en aldrei verið svona mikið inni í leiknum. Það gekk reyndar illa að spila boltanum í vindinum í fyrri hálfleik en það stórbatnaði í seinni hálfleik. Stelpurnar lögðu sig 100 prósent fram og ég get ekki farið fram á meira en það," sagði þjálfarinn.

„Mér fannst það sem við lögðum upp með ganga nokkuð vel upp. Við pressuðum þær framarlega og reyndum að koma þeim á óvart. Við tókum áhættu með að spila framar en vanalega og við misstum þær á bakvið okkur einu sinni þegar þær skora," sagði Sigurður sem segir að íslenska liðið þurfi fleiri framherja.

„Við vorum í smá basli. Margrét Lára er ekki í sínu besta formi og var að spila sem sóknartengiliður. Dagný er framherji en hennar besta staða er sem sóknartengiliður. Kristín Ýr kom ágætlega inn í leikinn en við þurfum að eignast fleiri góða framherja til að klára færin. Margrét Lára og Hólmfríður hafa skorað meira en helminginn af mörkunum okkar," sagði þjálfarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×