Íslenski boltinn

Fyrstu bikarmeistarnir í 20 ár til að detta út í vítakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson í leiknum í gær.
Guðmundur Kristjánsson í leiknum í gær. Mynd/Valli
Titilvörn bikarmeistara Breiðabliks endaði strax í fyrsta leik í gær þegar liðið tapaði í vítakeppni á móti Íslandsmeisturum FH á heimavelli sínum í Kópavogi. Þetta er í fimmta sinn á síðustu sjö árum þar sem bikarmeistararnir komast ekki í átta liða liða úrslitin.

Blikar urðu jafnframt fyrstu bikarmeistararnir í tvo áratugi til að detta út úr bikarkeppni í vítakeppni. Blikar bættust í hóp með Framliðinu frá 1990 sem datt út fyrir Val í vítakeppni í 16 liða úrslitum og voru fyrir leikinn í gær einu bikarmeistararnir sem hafa tapað í vítakeppni í titilvörn.

Líkt og Fram fyrir 20 árum þá komust Blikar yfir í leiknum í gær en Framliðið komst bæði í 2-0 og 3-2 á móti Val í umræddum leik 6. júlí 1990. Í vítakeppninni skoruðu Valsmenn hinsvegar úr öllum vítum síðan á meðan tvær spyrnur Fram klikkuðu.

Í vítakeppninni í gær klikkuðu FH-ingar á fyrstu tveimur spyrnum sínum en markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson tryggði FH sæti í 16 liða úrslitum með því að verja þrjár síðustu vítaspyrnur Blika.

Bikarmeistarar höfðu unnið fjórar vítakeppnir í röð frá umræddum leik sumarið 1990 en lið ÍA (2001), KR (1995) og Valur (2 sinnum 1991) höfðu öll unnið vítakeppnir í titilvörn sinni.

Bikarmeistarum hefur ekki tekið að verja titil sinn undanfarin sjö ár eða síðan að Fylkir vann bikarinn 2001 og 2003. Síðan þá hafa bikarmeistararnir dottið út tvisvar í 32 liða úrslitum, þrisvar í 16 liða úrslitum, tvisvar í 8 liða úrslitum og einu sinni í undanúrslitum en KR-ingar voru einum leik frá því að komast í bikarúrslitaleikinn í titilvörn sinni í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×