Íslenski boltinn

Eyjólfur: Strákarnir eru betri en þeir halda

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Eyjólfur ásamt aðstoðarþjálfara sínum Tómasi Inga Tómassyni.
Eyjólfur ásamt aðstoðarþjálfara sínum Tómasi Inga Tómassyni. Fréttablaðið/Anton
Íslenska ungmennalandsliðið spilaði einn besta leik sem íslenskt landslið hefur spilað undanfarin ár gegn Þjóðverjum á miðvikudag. Spilamennska liðsins í 4-1 sigrinum á Þjóðverjum var frábær, sama hvernig á hana er litið.

Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins, hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig hann vill að liðið spili. Leikaðferð hans gekk fullkomlega upp og endurspeglar hvað býr í liðinu.

„Strákarnir eru meðvitaðir um hvað þarf til að ná árangri. Það er með liðsheildinni. Ef það næst eiga einstaklingarnir möguleika á að blómstra, eins og strákarnir hafa gert hver á sinn hátt. Mér finnst mikilvægt að hver og einn nýti styrk sinn fyrir liðið. Þannig eru allir mikilvægir liðinu, sama hvað þeir heita og sama með hvaða liði þeir spila. Strákarnir eru samheldnir í þessu, það er enginn merkilegri en annar. Það er engin spurning að þetta er eitthvað sem þeir þurfa að læra ef menn ætla að ná árangri," segir Eyjólfur.

Þjálfarinn segist velja í leikmannahópinn og byrjunarliðið eftir því hvernig hann vill spila. „Mín hugmynd er að neyða andstæðinginn til að spila inn á miðjuna og vera þéttir fyrir þar. Á miðjunni viljum við vinna boltann og vera tilbúnir í að spila góðar skyndisóknir eftir fyrirfram ákveðnum leiðum. Ég vildi búa til gott lið sem væri með það á hreinu hvernig góðar skyndisóknir eru spilaðar. Við viljum spila skemmtilegan og góðan fótbolta," segir Eyjólfur og er ljóst að vel hefur tekist til.

„Íslensk landslið hafa oft verið þekkt fyrir að liggja í vörn og treysta á föst leikatriði til að skora. Við viljum frekar sækja hratt og vera ákveðnir og grimmir fram á við," segir þjálfarinn sem hefur einnig unnið mikið í sjálfstrausti liðsins.

„Ég sagði við strákana á sínum tíma að þeir væru betri en þeir héldu. Þeir verða að hafa trú á sinni getu, ef þeir hafa hana ekki hefur hana enginn. Þú skapar þinn veg sjálfur þó svo að aðrir geti hjálpað þér við það," sagði þjálfarinn.

„Ég leyfi mönnum að taka ákvarðanir inni á vellinum og ég krefst þess að þeir standi og falli með þeim. Mér er alveg sama þó að menn geri mistök einu sinni og einu sinni, það kemur fyrir hjá öllum, líka þeim bestu á HM. En hvernig menn bregðast við mistökunum skiptir mig máli, ég vil að menn haldi áfram og hengi ekki haus, menn verða bara að halda áfram."

Árangur liðsins undir stjórn Eyjólfs hefur verið góður. Liðið tapaði gegn Tékkum í fyrsta leik riðilsins en hefur ekki tapað leik síðan. Það gerði jafntefli við Þjóðverja úti og vann Norður-Íra og San Marínó tvisvar. „Árangurinn kemur mér ekki endilega á óvart, en hann er samt framar öllum björtustu vonum. Við fengum lítinn undirbúning fyrir leikinn gegn Tékkum og þá vorum við ekki búnir að stilla liðið saman. Þar keppti allt annað lið en við vorum fljótir að finna réttu blönduna. Eftirleikurinn var auðveldur," segir Eyjólfur.

Hann stýrði liðinu einnig í undankeppni EM árin 2004 og 2005. Þar náði liðið ágætum árangri og vann meðal annars Svía og Búlgara tvisvar. Það lenti í fjórða sæti riðilsins sem Krótar, þá með mann eins og Luka Modric innanborðs, unnu.

Eyjólfur tók svo við A-landsliði Íslands en það gekk ekki vel. Hann stýrði liðinu í tvö ár og þá aðeins í fjórtán leikjum. Undir hans stjórn vann Ísland tvo leiki, gerði fjögur jafntefli og tapaði átta leikjum, sem gerir 29 prósent árangur.

„Tíminn með A-landsliðinu var mjög erfiður tími fyrir mig. Það var margt sem gekk ekki upp þar. Margir hlutir voru heftandi fyrir allt liðið og allan undirbúning. Það var í raun aldrei friður í starfinu, þetta var erfitt alveg frá byrjun. En við reyndum bara að kyngja því en þetta gekk ekki upp," segir Eyjólfur.

Hann segist ekki hafa verið smeykur við að taka aftur við ungmennalandsliðinu eftir tímann með A-liðinu. „Alls ekki. Ég hef næga vitneskju um alþjóðlegan bolta og þekki þetta alveg," segir þjálfarinn sem hefur ekki leitt hugann að því hvort hann hefði áhuga á að taka við A-landsliðinu aftur. „Það hefur ekki einu sinni hvarflað að mér. Mér líður mjög vel núna sem þjálfari og finnst þetta mjög gaman. Ég er að reyna að gefa eitthvað af mér til strákanna og finnst það ganga vel," segir Eyjólfur Sverrisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×