Íslenski boltinn

KR-ingar hafa tapað síðustu þremur bikarleikjum sínum í Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik KR og ÍBV í fyrra.
Úr leik KR og ÍBV í fyrra.
VISA-bikarkeppni karla verður í fullum gangi í kvöld þegar 32 liða úrslit keppninnar hefjast með sjö leikjum. Stórleikur kvöldsins verður á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum þar sem KR-ingar koma í heimsókn.

Ólafur Brynjar Halldórsson, tölfræðigúrú þeirra KR-inga, hefur tekið saman skemmtilega samantekt um bikarleiki KR og ÍBV og má finna hana hér.

KR-ingar hafa ekki unnið bikarleik í Eyjum síðan sumarið 1989 og hafa tapað síðustu þremur bikarleikjum sínum á Hásteinsvellinum án þess að ná að skora.

ÍBV vann 1-0 í undanúrslitum 1996, 3-0 í undanúrslitum 1997 og 1-0 í átta liða úrslitunum. Svo skemmtilega vill til að allir markaskorarar ÍBV í þessum þremur leikjum Bjarnólfur Lárusson (1996), Sigurvin Ólafsson (2 mörk 1997), Tryggvi Guðmundsson (1997) og Kristinn Hafliðason (1998) hafa leikið með KR.

KR-ingar unnu síðast bikarleik í Vestmannaeyjum í undanúrslitum 1989. KR vann þá 3-2 sigur þar sem Sæbjörn Guðmundsson skoraði tvö mörk og Sigurður Björgvinsson kom liðinu í 1-0 á 3. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Eyjamenn hafa alls slegið KR-inga sex sinnum út úr bikarnum en KR-ingar hafa fimm sinnum náð því að slá ÍBV-liðið út þar af tvisvar eftir vítakeppni. KR-ingar unnu 5-4 í vítakeppni í síðasta bikarleik liðanna sem fram fór á KR-vellinum og var í átta liða úrslitunum sumarið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×