Körfubolti

Haukar fóru létt með Skallagrím í toppslagnum - KFÍ í toppsætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landon Quick lék vel í sínum fyrsta leik með Haukum.
Landon Quick lék vel í sínum fyrsta leik með Haukum. Mynd/Heimasíða Hauka
Haukar unnu öruggan 40 stiga sigur á Skallagrími, 105-65 í Borganesi í toppslag í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Liðin voru fyrir leikinn jöfn í 1. til 3. sæti deildarinnar og voru jafnframt þau einu sem höfðu aðeins tapað einum leik í deildinni.

Skallagrímsmenn höfðu unnið átta síðustu leiki sína eða alla leiki síðan þeir töpuðu 71-76 fyrir Haukum í fyrstu umferð deildarinnar á Ásvöllum en hann fór fram í október.

Bandaríkjamaðurinn Landon Quick lék sinn fyrsta leik með Haukum og það á móti sínum gömlu félögum í Haukum. Quick var með 24 stig og 6 stoðsendingar í leiknum í kvöld. Helgi Björn Einarsson skoraði 15 stig og tók 11 fráköst fyrir Hauka en hjá Skallagrími var Silver Laku stigahæstur með 24 stig.

Haukar unnu þarna sjöunda leik sinn í röð en eina tap liðsins var á móti KFÍ á Ísafirði. Ísafjarðarliðið er í toppsæti deildarinnar á þeim sigri en Haukar og KFÍ eru jöfn að stigum eftir 74-68 útisigur KFÍ á Þór Akureyri í kvöld.

Craig Schoen var með 28 stig og 12 stoðsendingar fyrir KFÍ en hjá Þórsliðinu er Óðinn Ásgeirsson farinn að spila aftur og hann var með 22 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar í kvöld.

Valsmenn eru í fjórða sæti deildarinnar eftir sjötta sigur sinn í röð. Valur vann 76-63 sigur á Hrunamönnum á Flúðum. Byron Davis skoraði 25 stig fyrir Valsliðið í kvöld og Benedikt Pálsson kom honum næstur með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×