Íslenski boltinn

Erla Steina endanlega hætt með landsliðinu

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Íslenska landsliðið fagnar marki. Fréttablaðið/Valli
Erla Steina Arnardóttir gefur ekki lengur kost á sér í íslenska landsliðið í knattspyrnu. Hún var ósátt með að vera ekki valin í liðið fyrr á þessu ári.

Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Þar segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari að hann hafi ekki íhugað að velja Erlu Steinu í landsleikina gegn Frökkum og Eistum en hópurinn fyrir leikina var tilkynntur í gær.

"Hún gefur ekki kost á sér í landsliðið síðan í febrúar eða mars á þessu ári þegar ég valdi hana ekki," sagði Sigurður sem valdi þá æfingahóp sem fór saman til Algarve á æfingamót.

"Hún er hætt að gefa kost á sér og því er ég ekkert að hugsa um hana. Ég hugsa ekkert um leikmenn sem gefa ekki kost á sér," sagði Sigurður.

Erla hafði áður sagt að ólíklegt væri að hún spilaði aftur með landsliðinu.

Erla er 27 ára gömul og hefur leikið 31 landsleik. Hún spilar með Kristianstad í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×