Íslenski boltinn

Eyjólfur: Nánast of gott til að vera satt

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Eyjólfur gat brosað í gær.
Eyjólfur gat brosað í gær. Fréttablaðið/Anton
„Þetta var eins og skólabókardæmi og nánast of gott til að vera satt,“ sagði landsliðsþjálfarinn Eyjólfur Sverrisson eftir frábæran 4-1 sigur U21 árs landsliðs Íslands gegn Þjóðverjum í gær.

Liðið var gríðarlega vel skipulagt og segir Eyjólfur að hann hafi ekki lagt upp með að vinna leikinn svona stórt en spilamennskan var upp á tíu eftir skipulaginu.

„Við ætluðum að pressa þá vel og koma þeim aðeins á óvart. Þeir áttu að finna fyrir því að það væri ekkert hægt að koma hingað til að leika sér. Ég er ánægður með að það tókst að skora snemma og baráttan í liðinu var alveg til fyrirmyndar,“ sagði Eyjólfur.

Þegar þeir jafna missum við heldur ekki trúna á verkefninu og þá var bara komið að okkur að sækja aftur. Við vissum að þeir myndu leysa leikinn upp og við höfðum opin augu fyrir skyndisóknarfærum. Það gekk vel upp,“ sagði þjálfarinn.

Hann vill ekki endilega meina að þetta sé besti leikur liðsins frá upphafi. „2-6 sigurinn gegn Norður-Írum úti var alveg ótrúlegur. Við hristum bara hausinn yfir því hvað gerðist þar. En núna vorum við að mæta sterkara liði, leikmönnum sem hafa margir mikla reynslu úr þýsku úrvalsdeildinni. Það er með ólíkindum hvað strákarnir voru öflugir,“ sagði Eyjólfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×