Körfubolti

Hafþór Ingi skoraði körfu af 25 metra færi - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ekkert nema net.
Ekkert nema net. Mynd/Daníel

Borgnesingurinn Hafþór Ingi Gunnarsson hefur skorað nokkrar magnaðar körfur á ferlinum en sú sem hann skoraði í fyrsta leik Skallagríms á móti Val í úrslitakeppni 1. deildar karla slær væntanlega þeim öllum við.

Hafþór fékk boltann úr innkasti undir sinni körfu og virtist ætla að brjóta pressuna með því að senda langa sendingu fram á félaga sinn Sigurð Þórarinsson sem brunaði upp völlinn.

Boltinn endaði þó ekki hjá Sigurði heldur beint ofan í körfunni og verður væntanlega útnefnd karfa ársins í íslenskum körfubolta.

Hafþór minnkaði muninn í 12-10 með þessari þriggja stiga körfu af um 25 metra færi en Valsmenn unnu þó leikinn 95-89 og geta tryggt sér sigur í einvíginu í Borgarnesi í kvöld.

Valsmenn tóku upp leikinn og sendu myndbrotið á Karfan.is þar sem má finna þessa mögnuðu körfu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×