Íslenski boltinn

Bjarni: Miklar framfarir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Bjarni Þór Viðarsson.
Bjarni Þór Viðarsson.
Bjarni Þór Viðarsson segir að íslenska U-21 landsliðið hafi tekið miklum framförum síðan að þessi hópur kom fyrst saman.

„Fyrsti leikurinn okkar var æfingaleikur gegn Dönum og það virðist vera mjög langt síðan," sagði Bjarni Þór sem er fyrirliði liðsins. „Við höfum bætt okkar leiki mikið síðan þá og menn hafa tekið miklum framförum. Það hefur verið góður stígandi í okkar liði."

Ísland mætir í kvöld Skotlandi í hreinum úrslitaleik um hvort liðið komist í lokakeppni EM í Danmörku á næsta ári. Ísland er með 2-1 forystu í rimmunni eftir fyrri leik liðanna á Íslandi á fimmtudaginn síðastliðinn.

Strákarnir komu til Skotlands á laugardaginn. „Ferðalagið tók langan tíma en við erum búnir að hvílast vel og höfum náð ferðaþreytunni úr okkur. Við erum vel stemmdir fyrir þessum leik. Við erum núna í dauðafæri til að komast á stórmót og erum ákveðnir í því að fara áfram."

Bjarni segir að hann hafi notið sín vel í forystuhlutverkinu.

„Það er frábært að fá að vera fyrirliði þessa liðs og leiða hópinn. Mitt hlutverk er kannski ekki mjög frábrugðið hjá öðrum en því fylgir kannski aðeins meiri ábyrgð."

Hann telur að liðið eigi fullt erindi á EM.

„Það er ekki spurning. Ef við komumst til Danmerkur ætlum við ekki bara að vera með heldur til að gera eitthvað. En til að eiga möguleika á því verðum við að klára þennan næsta leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×