Körfubolti

Sigrún kölluð perla síns liðs í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir lék með Hamar síðasta vetur.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir lék með Hamar síðasta vetur. Mynd/ÓskarÓ
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir byrjar mjög vel með Olympique Sannois Saint-Gratien í frönsku NF2-deildinni. Sigrún komst á síður frönsku blaðanna á dögunum þar sem henni var hrósað fyrir framgöngu sína á undirbúningstímabilinu þar sem liðið hefur unnið tvo leiki og tapað einum.

Eftir 79-23 stórsigur á neðri deildarliði birtist mynd af Sigrúnu í leiknum og í fyrirsögn var hún kölluð perla síns nýja liðs. Í greininni er einnig talað um að hún sé uppgötvun tímabilsins og að hún ásamt öðrum nýjum leikmanni liðsins hafi fallið vel að leik liðsins frá byrjun.

Sigrún sem er 22 ára gömul fór til Frakklands í haust eftir að hafa spilað með Haukum, KR og Hamar undanfarin sex tímabil hér á landi.

Það eru aðeins tvær vikur í að tímabilið hefjist og það verður spennandi að fylgjast með hvernig Sigrúnu gengur en hún er eins og er eina íslenska körfuboltakonan sem spilar í Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×