Handbolti

Akureyri slátraði Haukum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Akureyri er komið í úrslit deildarbikarkeppni karla eftir sigur á Haukum, 29-16, og mætir þar FH en hvorugur undanúrslitaleikurinn í kvöld reyndist spennandi viðureign.

Akureyri hafði forystu að loknum fyrri hálfleiknum, 16-10, og hafði svo gríðarlega mikla yfirburði í þeim síðari. Reyndar komust Haukar ekki á blað í síðari hálfleik fyrr en eftir tæplega 20 mínútna leik á meðan að Akureyringar juku forystu sína, jafnt og þétt.

Aðeins lifnaði yfir sóknarleik Hauka undir lok leiksins en þá var það vitanlega orðið allt, allt of seint. Björgvin Hólmgeirsson lék ekki með Haukum í kvöld og munaði um minna í sóknarleik liðsins.

Haukar eru nú handhafar allra titla á Íslandi í meistaraflokki karla en missa einn á morgun. Þá eigast við Akureyri og FH í úrslitum deildarbikarkeppninnar. FH-ingar unnu auðveldan sigur á Fram fyrr í kvöld, 40-31.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×