Körfubolti

Hattarmenn bæta við sig tveimur erlendum mönnum fyrir kvöldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hattarmenn vonast til að fagna heimasigri í kvöld.
Hattarmenn vonast til að fagna heimasigri í kvöld. Mynd/Heimasíða Hattar
1. deildarlið Hattar hefur styrkt sig fyrir seinni hluta tímabilsins en Bandaríkskur bakvörður og pólskur miðherji hafa gert tveggja mánaða samning við félagið. Höttur mætir Þór Akureyri á heimavelli í kvöld í mikilvægum leik í neðri hluta 1. deildarinnar.

Clark er 26 ára bakvörður sem lék seinast með Halifax Rainmen í Kanada. Hannibal Guðmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hattar, segir í viðtali við Austurgluggann að honum sé ætlað að efla sóknarleik liðsins en hann sé með góðar sendingar og fínn skotmaður.

Pólski miðherjinn Milosz Krajewski er kominn aftur til Hattar en hann lék með liðinu tímabilin 2006/7 og 2007/8 í fyrstu deildinni.

Höttur hefur einnig misst tvo menn fyrir leikinn mikilvæga á móti Þór Akureyri í kvöld. Steinólfur Jónasson verður ekki meira með liðinu á tímabilinu þar sem hann er farinn í heimsreisu og Georg Ögmundsson er frá vegna meiðsla.

Höttur er fyrir leikinn í 7. sæti, einu sæti og tveimur stigum ofar en Þórsliðið. Höttur vann fyrri leikinn með tíu stigum fyrir norðan og þurfa því norðanmenn að vinna með ellefu stigum í kvöld ætli þeir að taka 7. sætið af Hetti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×