Handbolti

GOG missir sterka leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari. Mynd/Stefán

Danska handknattleiksliðið hefur misst nokkra sterka leikmenn úr sínum röðum vegna fjárhagsvandræða félagsins.

Extra Bladet greinir frá því í morgun að þeir Peter Svensson og Fredrik Petersen séu báðir á leið frá félaginu.

Það var svo staðfest síðdegis að Svensson hafi samið við Bjerringbro-Silkeborg til loka tímabilsins 2012. Þá er talið að Svíinn Petersen, sem var markahæsti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili, sé á leið til Valladolid á Spáni.

Þá er einnig fullyrt að Grænlendingurinn Minik Dahl Höegh sé á leið til Fredericia.

Guðmundur Guðmundsson er þjálfari GOG og Ásgeir Örn Hallgrímsson leikur með liðinu. Óvíst er með framtíð þeirra hjá félaginu en Guðmundur sagði í samtali við Vísi að hann vissi lítið meira en það sem hefði komið fram í fjölmiðlum.

„Annars vil ég lítið segja um þetta. Eins og er ætla ég að einbeita mér að landsliðinu og annað verður bara að fá að hafa sinn gang.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×