Handbolti

Gunnar Steinn: Við erum með betra lið en Ystad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Steinn Jónsson.
Gunnar Steinn Jónsson.
Gunnar Steinn Jónsson og félagar í Drott eru komnir í oddaleik í undanúrslitum sænska handboltans og geta tryggt sér sæti í úrslitaleiknum á móti Sävehof vinni þeir Ystad í dag. Gunnar Steinn og félagar verða í beinni útsendingu á SVT 2 sem næst á Digital Ísland.

Gunnar Steinn hefur slegið í gegn í sænska boltanum í vetur og hann átti stórleik þegar Drott jafnaði einvígið í síðasta leik. Gunnar Steinn skoraði 10 mörk í leiknum og nýtti öll sex vítin sín.

Gunnar er markahæsti leikmaðurinn í fyrstu fjórum leikjum einvígisins en hann hefur skorað 25 mörk úr 44 skotum sem gerir 57 prósent skotnýtingu.

„Við stefnum núna á úrslitaleikinn því við erum með betra lið en Ystad," sagði Gunnar Steinn í viðtali við Hallandsposten.

„Ég hef ekki skorað 10 mörk í leik síðan að ég spilaði á Íslandi en ég var mjög vonsvikinn eftir tapið í þriðja leiknum og var búinn að bíða í eftirvæntingu eftir að geta náð fram hefndum," sagði Gunnar.

„Við spiluðum ekki vel í leikjum tvö og þrjú en við spiluðum mjög vel í fjórða leiknum. Við ætlum bara að halda áfram að spila okkar leik og ef við náum því þá vinnum við þennan leik í Ystad. Pressan er á þeim og við ætlum bara að láta vaða. Það eru bara tveir leikir eftir í gullið," sagði Gunnar Steinn en í Svíþjóð er bara einn úrslitaleikur um titilinn.

Leikurinn er í beinni útsendingu í sænska sjónvarpinu og hefst klukkan 14.00 að sænskum tíma eða klukkan 12.00 að íslenskum tíma. Þeir sem eru með Digital Ísland ættu að gera náð leiknum á SVT 2 sem er á stöð 73 á Digital Ísland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×