Íslenski boltinn

Fengu fjögur gul og þrjú rauð eftir að leiknum lauk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Pétur Guðmundsson, dómari leiks ÍR og Fjarðabyggðar í 1. deildinni í dag, hafði í nógu að snúast bæði á meðan leiknum stóð og eftir að hann var flautaður af.

ÍR vann leikinn, 4-1, og virtust þjálfarar og leikmenn Fjarðabyggðar afar ósáttir eftir að leiknum lauk.

Leikmenn Fjarðabyggðar fengu fjórar áminningar á meðan leiknum stóð og eftir hann bættust aðrar fjórar við og þrjú rauð spjöld þar að auki.

Það voru þeir Páll Guðlaugsson, þjálfari Fjarðabyggðar, og leikmennirnir Grétar Örn Ómarsson og Jóhann Ragnar Benediktsson sem fengu rautt.

Fjarðabyggð komst yfir í leiknum en ÍR-ingar náðu að jafna metin áður en flautað var til hálfleiks. ÍR skoraði svo þrívegis í síðari hálfleik og er nú á toppi deildarinnar með þrettán stig af fimmtán mögulegum.

Fjarðabyggð hefur hins vegar aðeins unnið einn leik af fimm til þessa í deildinni og er í tíunda sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×