Íslenski boltinn

Nenad Zivanovic tryggði Þór ótrúlegan sigur á Víkingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nenad Zivanovic lék áður með Breiðabliki en var hetja Þórsara í kvöld.
Nenad Zivanovic lék áður með Breiðabliki en var hetja Þórsara í kvöld. Mynd/Stefán
Þór frá Akureyri vann 4-3 sigur á Víkingi í 1. deild karla í fótbolta í kvöld þrátt fyrir að lenda 0-2 undir eftir 10 mínútna leik og vera 2-3 undir þegar 90 mínútur voru liðnar af leiknum.

Jóhann Helgi Hannesson og Nenad Zivanovic skoruðu báðir í uppbótartíma leiksins og tryggðu Þórsliðinu þar með annan sigurinn í röð. Þórsliðið er búið að skora átta mörk í þessum tveimur sigurleikjum

Walter Hjaltested og Egill Atlason komu Víkingum í 2-0 í upphafi leiks og Viktor Örn Guðmundsson kom Víkingum í 3-2 átta mínútum fyrir leikslok eftir að Atli Sigurjónsson og Jóhann Helgi Hannesson höfðu jafnað leikinn fyrir hálfleik.

Víkingar hefðu farið í toppsætið með sigri en í stað þess náðu Þórsarar af þeim öðru sætinu með þessum sigri. Þrír aðrir leikir hófust klukkan 20.00 og því getur staðan breyst seinna í kvöld.

Dean Martin tryggði KA 1-1 jafntefli á útivelli á móti Njarðvík eftir að Einar Helgi Helgason hafði komið Njarðvík í 1-0 í hinum leiknum sem hófst klukkan 19.00.

Upplýsingar um markaskorara í leikjunum eru fengnar af netmiðlinum fótbolti.net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×