Íslenski boltinn

Rúnar: Margir leikmenn voru ekki að spila af eðlilegri getu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
„Það er voðalítið hægt að segja eftir svona leik en ég vil bara óska FH-ingum til hamingju með frábæran sigur. Það var blóðugt að lenda 2-0 undir á tveimur vítaspyrnum sem ég er ekki búinn að sjá aftur," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir 4-0 tap KR fyrir FH í bikaúrslitaleiknum í kvöld.

Rúnar var eins og aðrir KR-ingar mjög ósáttur út í vítaspyrnudómanna sem skiluðu FH 2-0 forustu í hálfleik.

„Dómarinn tók sér umhugsunarfrest áður en hann dæmdi fyrsta vítið þar sem hann var sjálfur í vafa. Mér fannst það voðalega léttvægt og leikmaðurinn var líka að hlaupa frá markinu. Í seinna vítinu fór boltinn greinilega í höndina en menn eru ekki alltaf að dæma á þetta. Þeir gerðu það í þetta sinn og í rauninni er það línuvörðurinn sem ákveður þetta," sagði Rúnar.

„Það var erfitt að koma til baka því FH-ingarnir eru góðir. Við reyndum í síðari hálfleik að breyta um taktík og fjölga í sókninni en það gekk ekki upp og þeir refsuðu okkur með þriðja markinu," sagði Rúnar.

„Við vorum með marga leikmenn sem voru ekki að spila af eðlilegri getu. Liðið var ekki svipur frá sjón miðað við það sem það er búið að vera undanfarið," sagði Rúnar.

„Ef við hefðum nýtt eitthvað af þessum færum í byrjun þá hefði mönnum liðið betur og leikurinn þróast á annan hátt. Það eru mörg ef í þessu því FH-ingar áttu líka færi í upphafi leiks. Þessi víti drepa bara leikinn," sagði Rúnar.

„Það skiptir engu máli hvort þú tapar 4-0 eða 1-0 í bikarkeppni. Það er bara einn bikar í boði. Í bikarleik þá reynir þú að koma til baka og jafna leikinn. Við settum fullt af mönnum fram til að fá þetta eina mark sem myndi minnka muninn í 2-1 og koma okkur inn í leikinn. Það gekk ekki upp," sagði Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×