Körfubolti

Hrafn: Komum brjáluð í næsta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR. Mynd/Anton
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, segist sáttur við stöðu síns liðs fyrir komandi átök í Iceland Express-deild kvenna í vetur.

KR tapaði þó í dag fyrir Keflavík, 101-70, í úrslitaleik Lengjubikarkeppni kvenna í Laugardalshöllinni.

„Þetta spilaðist ekkert allt of vel fyrir okkur. Við vissum að þær yrðu gríðarlega sterkar undir körfunni. Við vorum svo komin í villuvandræði strax í fyrri hálfleik og það var erfitt að standa þetta lið af okkur," sagði Hrafn.

„En við ætluðum að vinna þennan leik. Það er þó ljóst að Keflavík er með eitt besta lið landsins og var að spila á fullum styrk í dag. Það er gott fyrir þær en þetta verður langur vetur."

„Mitt lið er að koma mjög vel undan sumrinu. Það eru miklar breytingar á leikmannahópnum en sjö af þeim tólf leikmönnum sem urðu meistarar með liðinu á síðustu leiktíð eru farnar. Það er því mikið af nýjum leikmönnum í liðinu sem eru búnar að taka mjög vel á því í sumar."

„Við erum afar ánægð með okkar stöðu þó svo að við hefðjum að sjálfsögðu viljað vinna þennan leik. Við nýtum okkur þetta eins og hvað annað og komum brjáluð í næsta leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×