Íslenski boltinn

Katrín Jónsdóttir: Þegar maður setur markið hátt er þetta svekkjandi

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fréttablaðið/Valli
Katrín Jónsdóttir landsliðsfyrirliði er óviss um það hvort hún haldi áfram með íslenska landsliðinu eftir HM-keppnina en hún segir að liðið þurfi að æfa sig betur í því að halda boltanum innan liðsins.

"Ég er ósátt við úrslitin. Við hefðum líka viljað skora og það er langt síðan við fengum á okkur mark á heimavelli," sagði Katrín eftir leikinn gegn Frökkum í dag.

"Við spiluðum vel á köflum en þeir kaflar hefðu þurft að vera lengri. Við sköpuðum okkur færi en með smá heppni hefðum við getað skorað. Ég er samt ánægð með stelpurnar, það lögðu sig allir 100% fram í dag og rúmlega það," sagði fyrirliðinn.

"Við pressuðum þær framarlega og það gekk vel. Á milli góðu kaflanna okkar þá komu kaflar þar sem Frakkar héldu boltanum mjög vel og stjórnuðu leiknum. Það skapaði eltingaleik sem tók frá okkur orku. Það hafði kannski áhrif þegar kom að því að klára færin," sagði Katrín en vonbrigði hennar leyndu sér ekki.

"Þegar maður setur markið hátt er þetta svekkjandi."

En ætlar hún að spila áfram með landsliðinu í næstu undakeppni? "Ég ætla að klára tímabilið, svo sjáum við til," sagði landsliðsfyrirliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×